,,afdrífaríkur þjónustusamningur"

Þann 11. júní í síðast liðinn var Reykjavík Energy Invest (REI) formlega stofnað en félaginu er eins og kunnugt er ætlað að vinna að útrás íslenskrar jarðhitaþekkingar. Við stofnun var fyrirtækið alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) en á stjórnarfundi 11. september urðu breytingar á eignarhaldi en þá keypti félag í eigu Bjarna Ármanssona fyrrverandi bankastjóra Glitnis hlut fyrir 500 milljónir króna. Á sama fundi þann 11. september var Guðmundur Þóroddsson forstjóri OR ráðinn forstjóri félagsins, sbr. frétt á mbl.is 12. september. OR er alfarið í eigu opinberra aðila, þar af eru um 94% í eigu Reykjavíkurborgar. Sem íbúa í Reykjavík er mér því annt um þetta fyrirtæki og eigur þess – eða öllu heldur eigur mínar og annarra íbúa í sveitarfélögunum sem eiga fyrirtækið.

Hinn umdeildi og afdrífaríki þjónustusamningur á milli OR og REI var undirritaður 3. október fyrir hönd eigenda félaganna af nýráðnum forstjóra OR og nýráðnum forstjóra REI. Rétt er að vekja athygli á því að nýráðinn forstjóri OR, Hjörleifur Kvaran, var áður aðstoðarforstjóri OR og fyrrverandi undirmaður viðsemjanda síns, núverandi forstjóra REI. Það er einnig rétt að rýna í starfsferil þessara tveggja forstjóra, en þeir hafa báðir nær eingöngu unnið hjá Reykjavíkurborg í ábyrgðarstörfum innan stjórnsýslunnar. Hjörleifur síðast sem borgarlögmaður og Guðmundur tók við starfi föður síns sem vatnsveitustjóri á tíunda áratug síðustu aldar. Báðir þessi forstjórar eiga því að hafa viðamikla þekkingu á opinberri stjórsýslu og því er ótrúlegt að menn skyldu hafa hrasað svona oft og illa í þessu stórfurðulega máli. En aftur að þjónustusamningnum sem ég er búinn að skoða lauslega. Ég (hálfblindur maðurinn) rak augun í eftirfarandi;

1. Afhendingu tækni og þekkingar - núverandi og framtíðar, afhending viðskiptasambanda – núverandi og framtíðar, öll fyrirliggjandi markaðssetningargögn, allar fyrirspurnir sem kunna að berast OR frá erlendum aðilum, OR þarf að hafa tiltæka sérfræðinga innandyra hjá sér sem REI hefur fullan aðgang að. REI fær að nota vörumerki og logo OR sem sín eigin án nokkurrar skyldu. Þau verðmæti sem felast í þessu sem OR leggur til hafa ekki verið metin af óháðum aðila, þau hafa ekki verið boðin öðrum en völdum aðilum og um þau hefur ekki verið fjallað hjá eigendum OR – þ.e. kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn.
2. Það er ekki alveg svo að REI hafi engar skyldur, en þær eru helstar að REI þarf að leita að viðskiptatækifærum utan Íslands (Hver er tilgangur REI???), á fjögurra mánaða fresti þarf REI að láta OR vita um áætlaða þörf fyrir þjónustu, þau fyrirtæki sem ætla í samkeppni við REI eiga rétt á að fá inni hjá fyrirtækinu ?????, starfsmenn OR eða sérfræðingar sem unnið hafa fyrir OR meiga ekki taka að sér vinnu fyrir REI fyrr en 12 mánuðir eru liðnir frá því þeir hættu störfum fyrir OR (er ekki búið að handvelja starfsmenn OR inn í REI??).
3. Fyrir þjónustu sem REI kaupir af OR skal greiða markaðsverð (ætli það sé til?) eða kostnaðarverð með álagi.
4. Í 20 ár hefur REI þennan rétt og þessar skyldur gagnvart OR.

Er þetta eðlilegt? Það skiptir kannski engu máli á þessu stigi hvers virði REI er eða þessi þekking sem OR hefur verið að byggja upp frá því fyrir miðja síðustu öld. Eru það 2 milljarðar, 10 milljarðar eða 100 milljarðar? Það sem skiptir mestu máli nú er það sem verið er að gera – athafnir og aðgerðaleysi stjórnarmanna og stjórnenda. Það er verðið að afhenda eigur almennings til valinna einstaklinga. Þar á meðal eru einstaklingar sem hafa haft með höndum undirbúning og samningagerð um afhendingu þessara eigna. Það skiptir einnig máli að í forsvari eru einstaklingar sem hefðu á grundvelli þekkingar sinnar og reynslu átt að vita að svona lagað gerir maður ekki – eða hvað? Þeir eru til sem hafa fengið inni á vegum Dómsmálaráðuneytisins fyrir mini eignatilfærslur en þessar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stór geta svikin orðið þegar

glampinn af gullinu er það skær að menn svíkja ekki aðeins samstarfsmenn

heldur einnig velgjörðarmenn sína, enn verða  svikin stærri þegar þjóðin er svikin,

Björgvin Víglundsson 18.10.2007 kl. 22:52

2 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

jarðvegurinn sem gaf þeim lífskraft og allt sitt atlæti.

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 18.10.2007 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband